​TÓNLIST 

SÓLEY

Sóley Stefánsdóttir er 31 árs tónlistarkona úr Hafnarfirði. Sóley stundaði píanónám frá unga aldri, bæði klassískt og jazznám. Hún kenndi í nokkur ár í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar bæði á píanó, tónsmíðar og tónfræði. 

Árið 2010 útskrifaðist Sóley af nýmiðla/tónsmíðabraut Listaháskóla Íslands. Sama ár gaf hún út sína fyrstu smáskífu THEATER ISLAND í samstarfi við þýska plötufyrirtækið MORR MUSIC. Rúmu ári síðar í september 2011 kom út  fyrsta breiðskífa Sóleyjar WE SINK.  Báðum plötunum var mjög vel tekið bæði hérlendis og erlendis þar sem þær fengu frábæra dóma. Sóley var tilnefnd sem bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2011. WE SINK var tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna sem besta plata ársins 2011 og Sóley var einnig tilnefnd sem lagahöfundur ársins.
We Sink fékk Kraumsverðlaunin 2011 og var tilnefnd til norrænu tónlistarverðlaunanna (NORDIC MUSIC PRIZE) sama ár. Sóley hefur tvívegis samið tónlist við leikrit og var tónlist hennar í brúðuleikritinu NÝJUSTU FRÉTTIR tilnefnd til GRÍMUNNAR sem tónlist ársins árið 2013.

Sóley fylgdi plötunni sinni WE SINK eftir með tveggja ára tónleikaferðalagi um heiminn. Á vefsíðunni Youtube hefur lagið „PRETTY FACE“ af plötunni náð hátt í 22 milljón spilunum. Yfir 220 þúsund manns hafa líkað við tónlistarsíðu Sóleyjar á Facebook.

 

Tónlist Sóleyjar er að mestu drifin áfram af píanói, oft mörgum píanólínum ofaní hvora aðra. Tónlistin er á köflum dökk og dreymandi. Skrýtnar verur og súrrealískar aðstæður upprunnar úr hugarfylgsnum Sóleyjar eru oft yrkisefni hennar.  

Please visit Sóley´s website for her bio and beautiful music, www.soleysoley.is